Sigurður M. Harðarson, einn eigenda vottunarstofunnar iCert ehf., mun koma af fullum krafti til starfa hjá iCert í byrjun nóvember. Sigurður hefur hingað til sinnt störfum sínum hjá iCert samhliða störfum sínum fyrir Icelandair Group. Frá stofnun iCert hefur Sigurður borið ábyrgð á þjálfun úttektaraðila iCert í úttektum á jafnlaunakerfum og öðrum stjórnunarkerfum, en reynsla hans í úttektum og vottun stjórnunarkerfa spannar yfir aldarfjórðung. Sigurður starfaði jafnframt hjá vottunarstofu erlendis til margra ára en hann hefur einnig sinnt úttektum hérlendis á gæða-, umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfum um áraraðir á vegum nokkurra erlendra vottunarstofa. Vegna mikilla anna iCert og nýrra verkefna mun Sigurður nú koma til með að stýra framkvæmd úttekta og efla gæða- og umhverfisvottunarhluta vottunarstofunnar.
Sigurður hóf störf hjá Icelandair Group fyrir 4 árum við uppbyggingu og innleiðingu umhverfisstjórnunarkerfis. Fyrir tveimur árum síðan náðist sá áfangi að öll átta fyrirtæki Icelandair Group samstæðunnar voru orðin vottuð í samræmi við ISO umhverfisstjórnunarstaðla sem og kröfur IATA alþjóðasamtaka flugfélaga. Innleiðing á umhverfisstjórnunarkerfi fyrir samstæðu af stærðargráðu eins og Icelandair Group, á ekki lengri tíma er fáheyrt. Innleiðingin og vottunin var mikilvægt framfaraskref í starfsemi Icelandair Group á tímum loftslagsbreytinga og merki um samfélagslega ábyrgð samstæðunnar.
iCert hefur síðustu misseri bent á mikilvægi þess að sett verði viðmið og komið upp vottunarkerfi fyrir loftslagsmál, sérstaklega hvað snertir fullyrðingar um kolefnisjöfnun og kolefnishlutleysi. iCert hefur unnið að gerð slíkra viðmiða og verða þau birt á allra næstu vikum.
Með Sigurði er komin mikilvæg viðbót hjá vottunarstofunni í áframhaldandi þróun og útfærslu nýrra lausna vottunarstofunnar í loftslagsmálum. Sigurður mun þannig ekki segja skilið við umhverfis- og loftslagsmál en mun nú gera það á stærri vettvangi.