Samræmismat

Samræmismat er aðferðarfræði við að staðfesta að vara, þjónusta eða kerfi uppfylli tilgreindar skilgreindar kröfur, oft kröfur sem er að finna í stöðlum.
Í samræmismati er leitast við að sýna fram á að tilgreindar kröfur séu uppfylltar eða ekki. Alþjóðlegu staðlasamtökin ISO hafa gefið út staðla til að stuðla að því að samræmismat sé unnið á eins samhæfðan hátt og kostur er. Í stöðlunum er eru settar fram kröfur til samræmismats mismunandi aðila eins og til prófunarstofa, skoðunarstofa eða vottunarstofa. Til þess að tryggja að þeir aðilar sem framkvæma samræmismat uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til þeirra afla þeir sér faggildingar hjá til þess bærum opinberum aðila, t.d. faggildingarsviðs Einkaleyfastofu. Á heimasíðu Einkaleyfastofu má finna lista yfir þá vottunar-, prófunar og skoðunarstofur sem eru faggiltar hér á landi.
Aðferðir við samræmismat eru vottun, skoðun eða prófun.

Vottun (e. certification) 

Vottun er framkvæmd af óháðum aðila sem gefur út skriflega staðfestingu (vottunarskírteini) um að vara, þjónusta eða kerfi sem tekið er út uppfylli tilgreindar kröfur. Mörg fyrirtæki hafa fengið gæðastjórnunarkerfi sitt vottað samkvæmt staðlinum ÍST EN ISO 9001. Það er leið til þess að sýna viðskiptavinum, hagsmunaaðilum og stjórnvöldum fram á að fyrirtækið hafi komið sér upp virku gæðastjórnunarkerfi sem uppfyllir kröfur staðalsins. Vottunarstofur þurfa að fylgja og uppfylla kröfur staðalsins ÍST EN ISO 17021-1:2015 eða ÍST EN ISO 17065:2012.

Prófun (e. testing)

Prófun er beitt til að ákvarða tiltekna eiginleika efnis eða vöru og er venjulega framkvæmd af prófunarstofu. Sem dæmi um prófun má nefna rannsóknir á blóðsýnum til að greina alkóhólmagn í blóði, hemlunarprófanir á bifreiðum og prófanir á eldsneytisdælum. Prófunarstofur þurfa að fylgja og uppfylla kröfur staðalsins ÍST EN ISO 17025:2017.

Skoðun (e. inspection)

Skoðun er ástandskönnun sem gerð er með reglulegu millibili á til að tryggja að tilgreind viðmið séu uppfyllt.
Slökkvitæki á til dæmis að skoða reglulega til að tryggja að þau séu örugg og virki eins og til er ætlast. Bílar og önnur farartæki eru einnig skoðuð reglulega. Skoðunarstofun þurfa að fylgja og uppfylla kröfur staðalsins ÍST EN ISO 17020:2012
Samræmismat er ekki aðeins framkvæmd á hlítni við tiltekna staðla heldur má notast við aðferðafræði samræmismats við að tryggja hlítni við önnur kerfi. Til dæmis nýtir Mannvirkjastofnun sér þá aðferðafræði til þess að tryggja hlítni við gæðakerfi í byggingariðnaðinum, eins er Ferðamálastofa að útfæra vottunarkerfi fyrir gæða- og umhverfiskerfið Vakann og svo má nota aðferðafræðina til þess að tryggja hlítni við viðmið vegna útgáfu “grænna” skuldabréfa svo dæmi séu tekin.
Samræmismat hefur ýmsa kosti í för með sér, svo sem viðskiptavinir og hagsmunaaðilar fá meira traust á vöru eða þjónustu sem um ræðir og fyrirtæki getur nýtt sér samræmismatið við að ná samkeppnisforskoti. Samræmismat hjálpar jafnframt stjórnvöldum við að tryggja að heilsuverndar-, öryggis- og umhverfismál séu í lagi og uppfylli a.m.k. lágmarkskröfur.
Hafa samband