CO2 Neutral

Hvað er kolefnishlutleysi

Parísarsamkomulagið skilgreinir kolefnishlutleysi þannig að jafnvægi sé náð milli losunar gróðurhúsalofttegunda frá manngerðum uppsprettum og bindingu þannig að nettó útstreymi þeirra sé jafnt núlli.

Nauðsynlegt er því að hér á landi séu til staðar viðmið um kolefnishlutleysi til þess að tryggja samræmda framkvæmd á fullyrðingum um kolefnishlutleysi og -jöfnun þannig að yfirlýsingar um kolefnishlutleysi hafi raunverulega þýðingu.Hingað til hafa ekki legið fyrir leiðbeiningar eða kröfur til kolefnishlutleysis eða kolefnisjöfnunar á íslensku. Slík viðmið eru hins vegar alþekkt erlendis og eiga flest sammerkt að byggja á sömu nálgun, sem CO2 Neutral byggir á.

Afhverju kolefnishlutleysi

Stœrsta áskorun okkar kynslóðar er að draga úr neikvœðum áhrifum loftslagsbreytinga svo komandi kynslóðir geti notið þeirra auðlinda sem jörðin hefur upp á að bjóða til framtíðar.
Til þess að svo megi verða þurfa allir að sýna samfélagslega ábyrgð og stuðla að kolefnishlutleysi í sínum athöfnum. Hins vegar verða aðgerðir að vera trúverðugar og sama gildir um fullyrðingar um kolefnishlutleysi og kolefnisjöfnun.

Viðmið

Kröfur og leiðbeiningar um kolefnishlutleysi

Viðmið iCert um kolefnishlutleysi er sett krafna til fyrirtækja og stofnana sem vilja sýna samfélagslega ábyrgð og gera starfsemi sína kolefnishlutlausa.

Viðmiðin byggja á erlendum fyrirmyndum og aðlöguð að íslenskum aðstæðum. Með framsetningu viðmiðanna vill iCert leggja sín lóð á vogarskálarnar til þess að markmið stjórnvalda um að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040 náist.

Viðmiðin eru öllum aðgengileg og því er auðvelt fyrir fyrirtæki og stofnanir sem styðjast við kröfur viðmiðanna að vísa til þeirra þegar sett er fram fullyrðing um kolefnishlutleysi.

Ná í viðmiðin

Hvernig?

Aðgengileg viðmið og kröfur

Viðmiðin eru sett upp á sem aðgengilegasta máta fyrir þá sem vilja nýta þau til að ná fram kolefnishlutleysi í starfsemi sinni.

Þau henta bæði þeim sem nú þegar hafa lýst yfir kolefnishlutleysi eða -jöfnun og þá sem vantar leiðbeiningar um hvernig ná má fram kolefnishlutleysi.

Þau eru jafnframt ætluð þeim sem vilja skilja hvað það þýðir þegar fyrirtæki eða stofnun setur fram fullyrðingu um kolefnishlutleysi eða kolefnisjöfnun.

Ávinningur

Fyrir utan þann samfélagslega ávinning að stuðla að því að halda hlýnun jarðar undir 2°C er margvíslegur annar ávinningur af kolefnishlutleysi.

Tekjuskapandi

Aukin viðskipti

Auknar líkur eru á að almenningur snúi viðskiptum sínum til þeirra sem sýna fram á skuldbindingar gagnvart loftslagsmálum.

Sparnaður

Draga úr kostnaði

Með samdrætti í losun má samhliða ná fram sparnaði t.d. vegna minni orku- eldsneytisnotkunar, breyttrar innkaupastefnu eða aðfangastýringar.

Loftslagsskattar

Dregur úr áhættu

Ef vel er staðið að málum gæti það minnkað líkur á að löggjafinn beiti skattheimtu til að ná fram markmiðum sínum.

Hagsmunaaðilar

Virkja og þrýsta á hagsmunaaðila

Með því að bera ábyrgð á sinni losun er stuðlað að því að aðrir fylgi eftir og geri slíkt hið sama.

Starfsemi

Aukinn skilningur

Með auknum skilningi á aðfangakeðju og kolefnisspori má endurskoða og hagræða virðiskeðju sem getur skilað sér í aukinni skilvirkni.

Lykilatriði þegar gera á starfsemi kolefnishlutlausa er að skilgreina hvaða starfsemi á að falla undir kolefnisbókhald og þar með kolefnishlutleysi, s.s. hvort að það nái yfir starfsemi eins lögaðila eða fleiri, hvaða losun í virðis- og/eða aðfangakeðju fellur undir og ákvarða hvar losun verður til innan starfseminnar.

Viðmiðin setja lágmarkskröfu hvaða þættir starfseminnar þarf að falla undir losunarumfang. Fyrirtæki og stofnanir eru kvattar til þess að fella sem mest undir losunarumfang sitt.

Nauðsynlegt er að eiga til gögn til heils árs um þá losun sem fellur undir losunarumfang. Vísað er til þessa árs sem grunnárs. Þegar kolefnisspor er reiknað er mikilvægt að huga einnig að losunarstuðlum fyrir viðkomandi losun. Þegar gögnum er safnað þarf að gæta þess að þau séu í samræmi við meginreglur kolefnisbókhalds, sem eru:

 • Gildi
 • Heildstæð skráning
 • Samræmi
 • Gagnsæi
 • Nákvæmni
 • Varfærni

Kolefnisbókhald gefur niðurstöðu um hvert kolefnisspor starfseminnar er.

Í samræmi við markmið Parísarsamkomulagsins sem felur í sér skuldbindingu um að draga úr losun og jafna fyrir það sem ekki er hægt að draga úr þannig að kolefnishlutleysi næst gera viðmiðin kröfu um að settar séu fram trúverðug markmið og áætlanir um samdrátt í losun. Þannig þarf þegar kolefnisspor liggur fyrir að meta hvar er hægt að draga úr losun og setja sér tímasett markmið um samdrátt.

Á hverju ári þarf að jafna fyrir sem nemur kolefnisspori starfseminnar. Þannig að losun í fyrir tímabilið hafi raunverulega verið jöfnuð. Það er hægt að gera með kaupum á viðurkenndum kolefniseiningum og eyðingu þeirra. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að hægt er að kaupa innlendar sem erlendar kolefniseiningar sem uppfylla meginreglur mótvægisaðgerða.

Í samræmi við aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum eru helstu aðgerðir til bindingar kolefnis

 • Landgræðsla (binding og samdráttur)
 • Endurheimt votlendis (samdráttur)
 • Skógrækt (binding)

Til eru ýmsar aðferðir til jöfnunar og mörg mýsköpunarverkefni í að spretta upp og þróast sem gætu uppfyllt meginreglur mótvægisaðgerða.

Meginreglur um mótvægisaðgerðir og útgáfu kolefniseininga eru:

 • Verkefni séu til viðbótar núverandi aðgerðum
 • Varanleg og raunveruleg jöfnun
 • Mælanleg jöfnun
 • Gagnsæ upplýsingagjöf útgefanda eininga
 • Óháð úttekt
 • Skráning eininga í kolefnisskrá

iCert birtir lista yfir þær tegundir eininga sem taldar eru uppfylla meginreglur.

Nauðsynlegt er að almenningu sé upplýstur. Þannig þarf að upplýsa um árangur um aðgerðir til minnkunar losunar og aðgerðum til leiðréttingar sem hluti af fullyrðingu um kolefnishlutleysi. Árleg skýrslugjöf heldur almenningi og hagsmunaaðilum upplýstum á gagnsæjan máta og miðlar þeim árangri sem náðst hefur í að stýra losun gróðurhúsalofttegunda.

Vel útfær, gagnsæ og óháð úttekt stuðlar að aukinni tiltrú á skýrslugjöf og fullyrðingu um kolefnishlutleysi. Óháð úttekt á að staðfesta nákvæmni og heildstæðni kolefnisbókhalds m.t.t. hversu viðeigandi losunarumfang er, aðferðarfræði, val stuðla og losunarsviðs.

Staðfesting óháðs þriðja aðila á að kröfur viðmiðanna eru uppfylltar stuðlar að frekari trúverðugleika og á sama tíma fæst endurgjöf úttektaraðila á útfærslu viðmiðanna í starfsemi hvers og eins aðila. Með vottun fá viðskiptavinir iCert árlega úttekt og endurgjöf á þann árangur sem stefnt er að auk heimildar til þess notkunar vottunarmerkis iCert fyrir kolefnishlutleysi.

Til að fræðast frekar um viðmið iCert um kolefnishlutleysi og kolefnisjöfnun hafðu endilega samband við skrifstofu iCert.

  Vottun

  Trúverðugleiki

  Líkt og með flesta staðla þá er vottun valkvæð. Hægt er að styðjast við viðmiðin til þess að setja fram fullyrðingar um kolefnishlutleysi. Ef það er gert verða fyrirtæki og stofnanir að sýna ábyrgð og tryggja að allar kröfur séu uppfylltar. Vilji fyrirtæki og stofnanir tryggja gagnsæi og stuðla að trúverðugleika geta þau óskað eftir vottun á að kröfur séu uppfylltar. iCert býður upp á vottun gagnvart kröfum viðmiðanna en með vottun fá fyrirtæki og stofnanir ekki aðeins staðfestingu á að kröfur séu uppfylltar heldur einnig aðgang að frekari leiðbeiningum á fræðsluvef iCert og endurgjöf á útfærslu þeirra á hvernig kolefnishlutleysi er tryggt.

  Hafðu samband við iCert snemma í ferlinu til að tryggja skilning á kröfum og aðferðafræði viðmiðanna.

  Vottunarmerki

  Staðfesting á hlítni

  Vottaðir viðskiptavinir iCert fá heimild til að nota vottunarmerki iCert sem staðfestingu á að kröfur séu uppfylltar.

  Auðvelt

  Ólíkt hefðbundnum stöðlum eru viðmið iCert um kolefnishlutleysi sett fram með notanda í huga. Þannig er honum stillt upp í “réttri” röð aðgerða sem nauðsynlegt er að framkvæma til að setja fram fullyrðingu um kolefnishlutleysi.

  Aukið gagnsæi

  Með reglubundinni skýrslugjöf um kolefnisspor starfsemi fyrirtækja og stofnana stuðlar að auknu gagnsæi um þá starfsemi sem þar fer fram og stuðlar að auknu trausti bæði almennings og opinberra aðila. Þannig stuðlar skýrslugjöf að skilvirkara eftirliti hagsmunaaðila með losun og aðgerðir fyrirtækja og stofnana til að draga úr losun.

  Efla vitund á lofslagsmálum

  Með stöðluðum viðmiðum eflist þekking almennings á kröfum til kolefnishlutleysis og hvað það þýðir að vera kolefnishlutlaus.

  Samfélagsleg ábyrgð

  Aukin krafa samfélagsins er að fyrirtæki og stofnanir sýni samfélagslega ábyrgð í starfsemi sinni. Með því að gera starfsemi sína kolefnishlutlausa sýna fyrirtæki og stofnanir samfélagslega ábyrgð en aðgerðir í loftslagsmál er hluti af sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.