FAQ

Hver er kostnaðurinn við vottun?

Faggiltar vottunarstofur lúta ströngum kröfum m.a. um hvernig vottun er framkvæmd og mati á úttektartíma. Hluti af þeim kröfum felst í að iCert þarf, áður en úttektartími er áætlaður, að afla upplýsinga um stærð fyrirtækis, staðsetningu þess, umfang starfsemi, fjölda starfsmanna, fjölda starfa o.fl. Þegar það liggur fyrir er unnt að áætla kostnað og tíma sem úttektir munu taka. Hafðu samband við iCert í dag til að fá frekari upplýsingar.

Afhverju ættu fyrirtæki og stofnanir að hljóta vottun?

Annars vegar vegna þeirrar kröfu laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með síðari breytingum, um að öll fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri skuli hljóta vottun á jafnlaunakerfi sem það hefur innleitt. Hins vegar felur vottun faggiltrar vottunarstofu í sér staðfestingu á skuldbindingu um hlítni við kröfur þeirra stjórnunarkerfisstaðla sem fyrirtæki eða stofnun hefur innleitt og getur sýnt viðskiptavinum sínum, hagsmunaaðilaum og stjórnvöldum fram á hana.

Hvernig nær fyrirtækið mitt vottun á stjórnkerfi?

Vottunarferlið felst í eftirfarandi skrefum:
  1. Gatagreining: Veitir mat á stöðu mála áður en farið er í vottunaraðgerðir og nauðsynlegar úttektir.
  2. Forúttekt: Mat á skjölum stjórnunarkerfisins og hvort fyrirtæki er tilbúið til að fara í vottunarúttekt.
  3. Vottunarúttekt: Mat á árangri stjórnunarkerfis í framkvæmd og hvernig því er viðhaldið með hliðsjón af stöðugum umbótum.
  4. Vottunarákvörðun: Ákvörðun iCert um hvort stjórnunarkerfið hlíti kröfum viðkomandi stjórnunarkerfisstaðals að teknu tilliti til mögulegra aðgerða sem nauðsynlegar voru eftir vottunarúttekt.
Stjórnunarkerfið þarf að hafa verið útfært og innleitt í starfsemi fyrirtækisins áður en til vottunar kemur. Nánar má lesa um vottunarferilinn hér.

Hversu lengi gildir vottun?

Vottun gildir í þrjú ár eftir útgáfu en eftirlitsúttektir eru framkvæmdar einu sinni á ári til að tryggja samræmi stjórnunarkerfisins við kröfur. Að þremur árum liðnum fer endurvottunarúttekt fram.

Hvernig hjálpar vottun fyrirtækinu?

Stjórnunarkerfi eru í eðli sínu góð leið til þess að auka skilvirkni og árangur fyrirtækja. Vottun er í flestum tilvikum valkvæð ráðstöfun fyrirtækja til þess að sýna viðskiptavinum, hagsmunaaðilum, stjórnvöldum að fyrirtækið fari að kröfum viðeigandi stjórnunarkerfisstaðla og að það hafi verið staðfest af hlutlausum aðila. Það getur hagnast þeim í að afla nýrra viðskiptatækifæra, bæta orðspor sitt og samskipti við hagsmunaaðila og stjórnvöld.

Hvað tekur langar tíma að innleiða stjórnunarkerfi og hljóta vottun?

Ef vel er staðið að málum þá ætti að vera raunhæft að útfæra, innleiða og koma í framkvæmd stjórnunarkerfi á 3-12 mánuðum. Það er hins vegar háð ýmsum þáttum, s.s. stærðar fyrirtækis, umfangs starfsemi þess, úrræðum í ferlinu o.fl. Eftirfarandi atriði skipta höfuðmáli ef vel á til að takast:
  • Skuldbinding yfirstjórnar sé til staðar
  • Núverandi staða ferla og framkvæmdar
  • Tegund stjórnunarkerfis
  • Hvort stjórnunarkerfi sé nú þegar til staðar
  • Hvort og þá hvernig kerfið er skjalað
  • Úrræði fyrirtækisins til innleiðingarinnar

Veitir iCert ráðgjöf í innleiðingu stjórnunarkerfa?

Í mörgum tilvikum getur verið gott fyrir fyrirtæki að fá sér ráðgjöf að hluta til eða mögulega í öllu innleiðingarferlinu. Það er hins vegar undir fyrirtækinu komið að meta þörfina á því. Hluti af þeim kröfum sem gerðar eru til faggiltra vottunarstofa er að þær mega ekki undir neinum kringumstæðum vera ráðgefandi hvað snýr að stjórnunarkerfum. Þess vegna veitir iCert ekki ráðgjöf í innleiðingu stjórnunarkerfa, en hins vegar er að finna á heimasíðunni lista yfir ráðgjafa sem veita ráðgjöf í innleiðingu stjórnunarkerfa. iCert heldur þó ýmis námskeið og kynningar þar sem farið er yfir kröfur stjórnunarkerfisstaðla, innri úttektir og áhættustýringu með hliðsjón af stjórnunarkerfisstöðlum með almennum hætti. Sjá nánar hér.

Hvað er ISO 9001:2015?

ISO 9001:2015 er alþjóðlegur gæðastjórnunarstaðall. Hann er almennur vottunarstaðall og þær kröfur sem fram koma í honum sýna fram á getu fyrirtækja til að veita þjónustu eða framleiða vörur sem uppfylla kröfur viðskiptavina og stjórnvaldskrafna. Þá skuldbinda fyrirtæki sig til að sinna stöðugum umbótum. Frekari upplýsingar um staðalinn má nálgast hér.

Hvað er ÍST 85:2012?

ÍST 85:2012 er séríslenskur staðall sem jafnan er kallaður jafnlaunastaðallinn en hann er afurð samstarfs stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem sýnir fram á sameiginlegan vilja allra aðila til að koma á og viðhalda jafnrétti kynja sem snýr að launum. Lögfesting hans tók gildi 1. janúar 2018 og felur m.a. í sér að öll fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri þurfa að innleiða jafnlaunakerfi í starfsemi sína og hljóta vottun á það kerfi. Frekari upplýsingar um jafnlaunastaðalinn má nálgast hér.
Hafa samband