Hvað er faggilding?

Hvað er faggilding?

Þann 1. apríl var iCert veitt faggilding í vottunum stjórnunarkerfa skv. ÍST EN ISO 17021-1:2015. En hvað er faggilding. Vottun byggir í grunninn á því trausti sem gerð er til þess aðila sem veitir vottun sem byggir m.a. á hæfni, óhæði, gagnsæi o.fl. Líkt og með önnur stjórnunarkerfi gilda alþjóðlegar kröfur um framkvæmd vottunar. Þær kröfur eru settar fram í staðlinum ÍST EN ISO 17021-1 og þurfa vottunarstofur sem taka út og votta stjórnunarkerfi eins og gæða-, umhverfis, öryggis- og jafnlaunakerfi að starfa samkvæmt þeim kröfum sem þar eru tilgreindar. Jafnframt þurfa þær að fara eftir leiðbeinandi kröfum staðalsins ÍST EN ISO 19011 sem snýr að úttektum á stjórnunarkerfum. Eins og vottun, er faggilding valkvæð ráðstöfun, nema að sjálfsögðu í tilviki jafnlaunavottunar sem er lagaskylda og til að votta jafnlaunakerfi þarf vottunarstofa að vera faggilt. Til þess að staðfesta traust, hæfni, óhæði og annað sem vottunarstofur þurfa að tryggja tekur opinber aðili út vottunarkerfi vottunarstofa og veitir faggildingu að því gefnu að kröfur séu uppfylltar.

Í hverju landi starfar einn faggildingaraðili sem veitir faggildingu, einnig í samræmi við alþjóðlegar kröfur sem tilgreindar eru í staðlinum ÍST EN ISO 17011 en jafnframt gilda sérlög um faggildingu sbr. lög nr. 24/2006 um faggildingu. Faggildingaraðili er faglega og fjárhagslega óháð opinberum- og einkaaðilum sem byggir undir traust. Faggildingaraðili tekur út og metur hvort vottunarstofur sem framkvæma samræmismat uppfylla þær kröfur sem þeim ber að fylgja séu uppfylltar. Faggildingaraðili hefur eftirlit með því að vottunarstofur sem hann hefur veitt faggildingu fari eftir ákvæðum sem gilda um faggildinguna og skilyrðum sem sett eru fyrir henni í samræmi við lög, reglugerðir, staðla og reglur. Að ósk faggildingaraðila er vottunarstofum sem hlotið hafa faggildingu skylt að taka á móti fulltrúum þess í eftirlitsheimsóknir. Þannig að þegar faggilding hefur verið veitt fyrir tiltekin fagsvið getur vottunarstofa veitt faggilta vottun sem þýðir að opinber aðili hefur yfirfarið og hefur eftirlit með þeirri vottunarframkvæmd sem faggilding nær til. Jafnframt hefur faggildingaraðili það hlutverk að samræma þá framkvæmd sem fellur undir fagsvið sem veitt hefur verið faggilding í. Þannig tryggir faggildingin að opinber aðili hefur staðfest og hefur eftirlit með að starfsemi vottunarstofa sé í samræmi við þær kröfur sem til þeirra eru gerðar og er þannig hluti af þeirri traustkeðju sem vottun er og tryggir samræmi í allri framkvæmd vottunar.